miðvikudagur, október 22, 2008

Á brauðfótum.

Í gær stóð ég á hálfgerðum brauðfótum.
Ástæðan er þessi. Dreif mig í ræktina með nokkrum vinnufélögum til einkaþjálfara sem tók okkur heldur betur í gegn. Ég hef ekki verið að mæta mikið í ræktina að undanförnu (köllum þessa pásu bara gott sumarfrí) svo að formið er nú ekki upp á sitt besta. Þau sem fóru með mér hafa verið mun duglegri að mæta. Ég gerði þó eins og ég gat til að halda í við þau og meðan ég svitaði, puðaði, æ-aði og ó-aði stóð þjálfarinn og hló að okkur og fannst voða gaman að sjá okkur "kveljast" svona. Að æfingu lokinni bar ég mig þó nokkuð ágætlega, en þegar líða fór á daginn fór þreytan og kraftleysið í löppunum að koma fram. Svo... ég vissi nokkrun veginn við hverju ætti að búast í dag.

Í dag voru brauðfæturnir alveg farnir. Í staðinn vaknaði ég í morgun ég með blýfætur og þessar fínu harðsperrur. Það voru hálfgerð átök að koma sér fram úr og staulast upp. Mikið geta þessar lappir þyngst á einni nóttu. Nú finn ég líka fyrir öllum þessum vöðvum sem hafa fengið að rýrna í pásunni og eru farnir að láta vita af sér. Æ, mig auma!

En þetta er ágætist spark og áminning um að fara hreyfa sig aftur af einhverju viti. Næsta mál er bara að mæta í ræktina til að liðka kroppinn og svo hitta þjálfarann aftur! Ég get, ætla og skal :)